Refsiréttur og sakamál

hagsmunagæsla í sakamálum -

Refsiréttur og sakamál

Sakamál eru mál sem handhafar ákæruvalds höfða til refsingar lögum samkvæmt. Refsingar eru almennt í formi fangelsisvistar eða fésektar sem er lögð á þann sem fremur refsivert afbrot.

Refsivert afbrot þarf að uppfylla þrjú megin skilyrði. Í fyrsta lagi þarf háttsemi sú sem ákært er fyrir að varða refsingu í lögum á þeim tíma sem atvik eiga sér stað. Í öðru lagi þarf að vera um háttsemi að ræða sem ekki afsakast af neyðarvörn eða neyðarrétti. Í þriðja lagi þarf háttsemi að vera framin af ásetningi eða gáleysi. Ef um er að ræða brot á almennum hegningarlögum er almennt áskilið að brot sé framið af ásetningi en ef um er að ræða brot á öðrum lögum er almennt eingöngu áskilið að brot hafi verið framið af gáleysi, þ. e. hinn brotlegi hafi ekki gætt þeirrar varúðar sem hægt var að ætlast til af honum.

Til að um refsivert afbrot sé að ræða þurfa öll þrjú ofangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Eingöngu sakhæfum einstaklingum verður refsað fyrir refsivert afbrot. Megin skilyrði sakhæfis eru 15 ára aldur að lágmarki og færni til að stjórna eigin gerðum. Einstaklingum undir 15 ára aldri og einstaklingum sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands, voru alls ófærir á þeim tíma sem verk var unnið, til að stjórna gerðum sínum, teljast ekki sakhæfir og verður því almennt ekki refsað þó þeir hafi framið refsivert afbrot.

Sakborningi er heimilt að halda sjálfur uppi vörnum í sakamáli kjósi hann það og sé hæfur til þess að mati dómara eða lögreglu.

Hafi sakborningur verið handtekinn í þágu rannsóknar, þess krafist að hann sæti gæsluvarðhaldi eða öðrum þvingunarráðstöfunum eða mál verið höfðað gegn honum á hann rétt á að njóta aðstoðar verjanda óski hann slíkrar aðstoðar. Við slíkar aðstæður er lögreglu eða dómara skylt að verða við ósk sakbornings um tilnefningu eða skipan verjanda og ber almennt að fara eftir óskum sakbornings um val á lögmanni. Lögreglu er einnig heimilt að tilnefna sakborningi verjanda ef ástæða þykir til þess með tilliti til eðlis brots og aðstæðna að öðru leyti. Sakborningi er svo á öllum stigum máls heimilt að ráða á sinn kostnað talsmann/lögmann til að gæta hagsmuna sinna.

Þóknun verjanda greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar en sakborningur ber með beinum hætti allan kostnað af þóknun talsmanns/lögmanns.

Brotaþoli, eða lögráðamaður ef brotaþoli er ólögráða, getur almennt gætt hagsmuna sinna við meðferð sakamáls sjálfur. Ef rannsókn máls beinist að kynferðisbroti sem heyrir undir XXII. kafla almennra hegningarlaga er lögreglu skylt að tilnefna brotaþola réttargæslumann óski hann þess, en ávallt ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst. Einnig er lögreglu skylt að tilnefna brotaþola réttargæslumann, óski hann þes, ef 1) rannsókn beinist að líkamsmeiðingum eða broti gegn frjálsræði manna samkvæmt XXII og XXIV almennra hegningarlaga, 2) ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn og 3) brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Að auki er brotaþola svo ávallt heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna.

Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita aðstoð við meðferð málsins, m. a. með aðstoð við að setja fram einkaréttarkröfu.

Þóknun tilnefnds eða skipaðs réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar. Þóknun lögmanns sem brotaþoli ræður til að gæta hagsmuna sinna við meðferð máls greiðist af brotaþola sjálfum.

Porto lögmannsstofa tekur að sér hagsmunagæslu sakborninga og brotaþola í sakamálum, hvort heldur sem verjandi, réttargæslumaður eða talsmaður/lögmaður.

Dæmi um

Verjandi
Réttargæslumaður

Ertu ekki viss um þinn rétt? Heyrðu í okkur í síma eða sendu okkur línu!

792-2090