Erfðaskrá

Erfðaskrá segir til um hvernig skuli ráðstafa eignum eftir andlát

Erfðaskrá

Erfðaskrár og erfðareglur almennt hafa það að markmiði að greiða fyrir eðlilegri eignayfirfærslu milli kynslóða. Lögbundnum erfðareglum er ætlað að endurspegla aðilaskipti að eignum með þeim hætti sem meiri hluti borgaranna telur eðlilegt á hverjum tíma. Með erfðaskrá er svo einstaklingum gert fært að ráðstafa eignum sínum í samræmi við vilja sinn með ákveðnum takmörkunum.

Ef engin erfðaskrá er til staðar erfast eignir í samræmi við erfðalög. Reglur erfðalaga leiða til þess að arfur rennur til tiltekinna ættingja hins látna eftir ákveðinni forgangsröð. Ef arfleifandi vill haga erfðum eftir sig með einhverjum öðrum hætti þarf að mæla fyrir um það í erfðaskrá.

Hvað erfist?

Við andlát erfast réttindi og skyldur arfleifandans sem ekki voru tengd persónu hans órjúfanlegum böndum. Þannig erfast fjárhagsleg réttindi að mestu leyti en persónutengd réttindi á við lífeyrissjóðsréttindi, rétt til eftirlauna og réttindi til meðlagsgreiðslna erfast að meginstefnu ekki. Andlát manns getur hins vegar leitt til stofnunar skyldra réttinda til hagsbóta fyrir eftirlifandi maka eða aðra erfingja sem þá öðlast sjálfstæða kröfu til hagsbótanna óviðkomandi reglum erfðaréttarins.

Fasteignir og lausafé, fjárhagsleg réttindi á við hlutabréf, skuldabréf, réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi og skaðabótakröfur erfast að meginstefnu.

Reglur erfðaréttarins miða að uppgjöri dánarbúsins. Meginreglan er því sú að líkt og eftir látnar eignir manns færast yfir á dánarbúið og síðan á til erfingja þá færast einnig að meginstefnu allar fjárskuldbindingar á dánarbúið. Líkt og með eignirnar eru vissar undantekningar frá því að skuldbindingar sem eru nátengdar persónu arfleifanda erfist. Dæmi um skuldbindingar sem falla niður við andlát eru skylda til greiðslu meðlags og endurgreiðslu námslána hjá Menntasjóði námsmanna.

Nokkrir grundvallarþættir varðandi arftöku

Frumskilyrði arftöku er að arfleifandi sé látinn. Meginreglan er svo að erfingi geti verið hver sá einstaklingur eða lögpersóna sem hefur hæfi til að eiga réttindi og bera skyldur að lögum. Allir menn sem fæðst hafa lifandi geta því verið erfingjar og jafnframt stofnanir og félög sem hafa þá umgjörð að þau geti átt réttindi og borið skyldur. Ef lögerfingi er látinn þegar arfur tæmist fellur arfshlutinn til erfingja hans samkvæmt eftir reglum erfðaréttarins. Ef bréferfingi, þ. e. erfingi samkvæmt erfðaskrá, er látinn þegar arfur fellur er það háð lögskýringu hverju sinni hvort lögerfingjar þess bréferfingja hljóta arfinn.

Hvar fara erfðaskipti fram?

Það er meginregla í alþjóðlegum einkamálarétti á sviði erfða- og skiptaréttar að skipti á dánarbúum skuli fara fram samfellt í tilteknu ríki og taka til allra eigna og skulda arfleifanda óháð því hvar eignirnar eru niður komnar. Frá þessu geta verið frávik t. d. þess efnis að um fasteignir skuli beita erfðareglum þess ríkis þar sem þær liggja.

Misjafnt er svo milli ríkja hvort miðað skuli við að búskipti skuli fara fram í landi þar sem arfleifandi var síðast heimilisfastur eða í landi þar sem hann átti ríkisborgararétt.

Lögerfðir

Lögarfur er arfur sem byggir eingöngu á ákvæðum settra laga. Í erfðalögum er þannig kveðið á um hvernig með skuli fara þegar engin erfðaskrá er til staðar, en í slíkum tilvikum gengur arfur til svokallaðra lögerfingja eftir ákveðnum reglum. Lögerfingjar eru börn arfleifanda og aðrir niðjar, foreldrar og niðjar þeirra, foreldrar foreldra og afkomendur þeirra og maki arfleifanda. Maki í skilningi erfðalaga er einstaklingur sem er í hjúskap með öðrum einstaklingi en sambúðarmaki fellur ekki þar undir. Helstu lögerfðareglur eru eftirfarandi:

  • Ef maki og börn eru á lífi erfir maki 1/3 hluta eigna og börn 2/3 hluta að jöfnu.
  • Ef eingöngu maki er á lífi tekur hann allan arf.
  • Ef eingöngu börn eða aðrir niðjar eru á lífi taka þau allan arf að jöfnu.
  • Ef hvorki maki né niðjar eru á lífi taka foreldrar hins látna arf að jöfnu og eftir atvikum niðjar þeirrar.

Arfur samkvæmt erfðaskrá (Bréferfðir)

Til að geta ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá svo gilt sé þurfa einstaklingar að vera að lágmarki 18 ára gamlir. Hafi einstaklingur stofnað til hjúskapar fyrir þann aldur telst aldursskilyrði þó uppfyllt. Einnig er gildisskilyrði að sá sem geri erfðaskrá sé svo heill heilsu andlega að hann sé fær um að ráðstafa eignunum á skynsamlegan hátt.

Það getur verið misjafnt hversu stórum hluta eigna sinna einstaklingum er heimilt að ráðstafa með erfðaskrá. Ef arfleifandi á afkomendur eða maka á lífi er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eignanna með erfðaskrá. Um þá 2/3 hluta sem eftir standa færi í slíkum tilvikum eftir reglum um lögerfðir. Ef hvorki afkomendur né maki eru á lífi er arfleifanda heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Arfleifandi getur bundið arf eftir sig tilteknum kvöðum. Ef um skylduerfingja er að ræða, þ. e. maka eða afkomendur, er heimild arfleifanda mjög afmörkuð að þessu leiti. Nokkuð rýmri heimildir eru til að binda arf til annarra kvöðum. Hér getur ýmislegt komið til t. d. einhver tiltekin ráðstöfun eignar að erfingja látnum svo dæmi sé tekið.

Erfðaskrár geta verið einrúmsgerningar, sameiginlegar og gagnkvæmar. Einrúmsgerningur tekur til þess þegar einn einstaklingur mælir fyrir um vilja sinn að sér gengnum. Sameiginleg erfðaskrá er þegar tveir eða fleiri menn mæla í sameiningu fyrir um ráðstöfun eignar sem þeir eiga í sameign. Gagnkvæm erfðaskrá er svo þegar tveir eða fleiri menn arfleiða hvorn annan eða hverjir aðra að tiltekinni eign eða eignarheild.

Þegar texti erfðaskrár er túlkaður er tekið mið af svokallaðri viljakenningu. Í því felst að ef texti er óljós beri að gefa honum þá merkingu sem ætla megi að vilji arfleifanda hafi staðið til.

Seta í óskiptu búi

Réttur eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi er undantekning frá þeirri meginreglu erfða- og skiptaréttar að erfðaskipti skuli fara fram svo skjótt eftir andlát arfleifanda sem við verði komið. Í heimild til setu í óskiptu búi felst í raun að eiginlegum arfskiptum eftir skammlífari maka er slegið á frest. Langlífari maki sem situr í óskiptu búi heldur þannig áfram sínu lífi án þess að þurfa að skipta út úr búinu arfi hins látna til barna. Tilvist hins langlífari og sjálfstæði er fyrir vikið í minna uppnámi en ella.

Hjúskapur er frumskilyrði réttar til setu í óskiptu búi. Einstaklingar í óvígðri sambúð geta því ekki frestað búskiptunum með þessu úrræði. Einstaklingar sem búa saman og vilja að langlífari maki eigi val um að sitja í óskiptu búi þurfa því að láta gefa sig saman.

Ef hjón eiga eingöngu sameiginleg börn ræður langlífari maki hvort hann situr í óskiptu búi og þarf ekki samþykki barnanna til. Í slíkum tilvikum er ekki þörf á að mæla fyrir um rétt til setu í óskiptu búi með erfðaskrá.

Ef annað hjóna eða bæði eiga börn sem eru ekki sameiginleg þá getur barn hins látna sem ekki er sameiginlegt neitað eftirlifandi maka um rétt til setu í óskiptu búi. Í slíkum tilvikum er þörf á að mæla sérstaklega fyrir um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi með erfðaskrá. Ef það er gert þarf ekki að leita eftir samþykki eftirlifandi barna sem ekki eru sameiginleg. 

Dæmi um þetta gæti verið kona sem á barn úr fyrra sambandi og er gift öðrum manni en blóðföður barnsins. Hafi konan gert erfðaskrá þar sem fram kemur að eiginmaður hennar geti setið í óskiptu búi kjósi hann svo þarf barn hennar úr fyrra sambandi að láta sér það lynda hvort sem því líkar betur eða verr. Hafi engin erfðaskrá verið gerð þar sem þessi vilji konunnar kemur fram ræður barn konunnar hvort langlífari maki fær að sitja í búinu óskiptu eða ekki. Í síðara tilvikinu er staða eftirlifandi maka því mun ótryggari en í því fyrra.

Formskilyrði, ógildingarannmarkar og mikilvægi þess að njóta aðstoðar lögmanns

Erfðaskrár eru formbundnar og um þær gilda strangari formskilyrði en um flesta aðra löggerninga. Þessi ströngu formskilyrði stuðla að því að ákvarða megi með vissu hinn endanlega vilja arfleifanda, tryggt sé að skjalið sé ófalsað, arfleifandi hafi verið hæfur andlega til að standa að erfðaskránni og hann hafi ekki verið beittur þvingun við gerð hennar.

Minni háttar formbrestir þurfa ekki endilega að varða ógildi erfðaskrár en geta gert það við tilteknar aðstæður. Meiriháttar frávik leiða hins vegar tvímælalaust til ógildingar sé ógildingar krafist af þeirri ástæðu.

Hinsti vilji arfleifand um ráðstöfun alls þess sem eftir hann stendur er útfærður í erfðaskrá. Það er því áríðandi að tryggja eins vel og unnt er að sá vilji sem stendur að baki hljóti framgang í samræmi við það sem hinn látni sá fyrir sér að yrði.

Ef afkomendur hjóna eru ekki allir sameiginlegir er þannig mjög mikilvægt að í erfðaskrá sé mælt fyrir um rétt hins langlífari til setu í óskipu búi, ef vilji stendur til þess, svo langlífari maki eigi þann rétt ekki undir afkomendum hins skammlífari þegar á reynir.

Það er svo áríðandi að tryggt sé að engir efnis- eða formannmarkar leiði til þess að ráðstöfun arfs verði með öðrum hætti vilji hins látna stóð til. Um slíkt eru mýmörg dæmi.

Aðstoð lögmanns við gerð erfðaskrár hjálpar arfleifanda að átta sig á hvaða er heimilt að mæla fyrir um í erfðaskrá og veitir tryggingu fyrir því að efnis og formannmarkar leiði ekki til annarrar niðurstöðu en stefnt var að. Það er því til mikils að vinna að njóta slíkrar aðstoðar.

Porto lögmannsstofa tekur að sér gerð erfðaskráa. Fast verð fyrir erfðaskrá sem telst hefðbundin að umfangi er kr. 60.000.- auk vsk. (kr. 74.400 með virðisaukaskatti). Ef erfðaskrá er óvenju flókin eða efnismikil bætist við tímagjald fyrir aukna vinnu en viðskiptavinurinn er ávallt upplýstur um slíkt fyrir fram.

Þú getur haft samband hér við lögmann Porto til að gera erfðaskrá. Lögmaðurinn býður þér annað hvort að hitta sig á skrifstofu sinni eða símafund þar sem farið er yfir hvernig þú vilt hafa erfðaskránna. Eigir þú ekki heimangengt, getur lögmaður komið til þín.

Erfðaskrá

Um erfðaskrá

Þjónusta Porto lögmannsstofu í tengdum málefnum:

Ráðgjöf og hagsmunagæsla við skipti dánarbúa
Fyrirframgreiddur arfur
Lífsgjöf
Dánargjöf

Hefur þú spurningu um þinn rétt? Heyrðu í okkur í síma eða sendu okkur línu!

792-2090