Álitsgerð, lögmaður, lögfræðingur

stjórnsýslumál -

Stjórnsýslumál

Stjórnsýslumál eru mál þegar einstaklingar og lögaðilar eiga í  samskiptum við stjórnvöld. Almennt eru þessi samskipti einföld og vel á færi einstaklinganna sjálfra sem hlut eiga að máli.

Þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna gilda um málsmeðferðina ákvæði stjórnsýslulaga og óskráðar almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar sem tryggja borgaranum ákveðin lágmarks réttindi. Þannig er starfsmanni sem hefur tiltekin hagsmunatengsl við aðila máls óheimilt að koma að málsmeðferðinni og stjórnvöldum skylt að leiðbeina málsaðila um málsmeðferðina, taka ákvarðanir svo fljótt sem unnt er, rannsaka mál með viðhlítandi hætti og gæta jafnræðis við töku ákvörðunar. Jafnframt er málsaðila tryggður réttur til að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin og réttur til aðgengis að skjölum og öðrum gögnum er mál varða.

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og birt hana aðila máls hefur hann almennt rétt til að fá nánari rökstuðning fyrir ákvörðuninni og kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds eða úrskurðarnefndar til þess að fá hana fellda úr gildi eða breytt. Ef kæruleið hefur verið tæmd og málsaðili telur sig hafa verið beittan órétti er sú leið fær að kvarta yfir málsmeðferðinni til umboðsmanns Alþingis sem hefur það hlutverk með höndum að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

Þegar um er að ræða mál fyrir stjórnvöldum sem varða mikilvæga hagsmuni og /eða eru mjög flókin kann að vera gott að njóta aðstoðar lögfræðings frá upphafi málsmeðferðar. Ef stjórnsýslumáli hefur lokið með ákvörðun sem málsaðili er ósáttur við kann svo að vera gott að njóta aðstoðar lögfræðings við að meta niðurstöðuna og ef tilefni þykir til leggja fram stjórnsýslukæru og freista þess að fá ákvörðun breytt og eftir atvikum leggja fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis.

Porto lögmannsstofa tekur að sér að annast stjórnsýslumál fyrir viðskiptavini sína.

Dæmi um stjórnsýslumál

Kæra vegna synjunar um örorkubætur
Kæra vegna synjunar um endurhæfingalífeyri/ örorku
Kæra vegna synjunar á aðgangi að gögnum
Kæra vegna rangs fasteignamats
Kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu eða meðferðar máls

Ertu ekki viss um þinn rétt? Heyrðu í okkur í síma eða sendu okkur línu!

792-2090