Slysa- og veikindaréttur sjómanna

Yfirlit:

  1. Inngangur
  2. Frumskilyrði slysa- og veikindalauna
  3. Greiðslur – Tími og fjárhæðir
  4. Niðurlag
  1. Inngangur

Sjómennska er ein af undirstöðugreinum okkar Íslendinga. Landfræðileg lega landsins leiðir til þess að út- og innflutningur fer fram sjóleiðina að mestu leyti og fiskveiðar á gjöfulum miðum hafa öðru fremur lagt grundvöll að þeim góðu lífsgæðum sem við búum að. Sjómaðurinn er þannig ein af lykilpersónum í íslensku atvinnulífi.

Eðli málsins samkvæmt er sjómennska ekki hættulaus. Fiskimenn, farmenn og aðrir sjómenn þurfa að glíma við náttúruöflin á hafsvæðinu í kringum Ísland og eftir atvikum á úthafinu og í lögsögu annarra ríkja. Þegar vinnustaðurinn er hreyfanlegur, og ekki alltaf með fyrirsjáanlegum hætti, eykst slysahættan verulega umfram það sem ætti við undir sambærilegum aðstæðum á þurru landi. Því er mjög mikilvægt að fyrirsjáanlegar hættur um borð í skipum séu greindar eins vel og unnt er og gripið sé til viðeigandi forvarna.

Vegna hættueiginleika sjómennskunnar er mjög mikilvægt annars vegar að forvörnum sé sinnt til að draga úr slysahættu eins og frekast er unnt og hins vegar að réttur sjómanna til forfallalauna sé ríkur ef illa fer. Í þessari grein verður kastljósinu beint að því síðarnefnda, þ. e. þeim rétti til forfallalauna sem sjómenn eiga þegar slys- og veikindi knýja dyra.

Kjör launamanna hafa almennt tekið breytingum til hins betra undanfarna áratugi. Í fyrstu íslensku sjómannalögunum frá 1930 var mælt fyrir um rétt veikra og slasaðra skipverja á forfallalaunum í sjö daga. Við setningu nýrra sjómannalaga árið 1963 var réttur til forfallakaups lengdur í einn mánuð hjá undirmönnum en í tvo mánuði hjá yfirmönnum. Með breytingarlögum nr. 49/1980 og svo setningu núgildandi sjómannalaga nr. 35/1985 var réttur til forfallalauna færður að mestu í það horf sem er við lýði í dag.

Hér að neðan verða reifuð grundvallaratriði 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og helstu álitaefni sem kviknað hafa við túlkun ákvæðisins. Farið verður yfir frumskilyrði þess að réttur til slysa- og veikindalauna sé til staðar, tímalengd sem réttur varir og fjárhæðir greiðslna.

  1. Frumskilyrði slysa- og veikindalauna

Réttur til slysa- og veikindalauna sjómanna kemur eingöngu til skoðunar ef tiltekin frumskilyrði eru uppfyllt. Þessi skilyrði eru að 1) ráðningarsamband hafi verið til staðar þegar slys á sér stað eða veikindi hefjast, 2) skipverji sé óvinnufær samkvæmt vottorði læknis og 3) skipverji hafi tilkynnt um óvinnufærni eins fljótt og unnt var til skipstjóra eða útgerðar. Hér verður fjallað um þessi skilyrði stuttlega hvert fyrir sig.

Fyrsta skilyrðið er að ráðningarsamband hafi verið til staðar milli skipverja og útgerðar þegar slys- á sér stað eða veikindi hefjast. Alla jafna ætti að vera nokkuð ljóst hvort þetta skilyrði er uppfyllt eða ekki. Ágreiningur sem risið getur um þetta skilyrði kemur helst til ef um tímabundna ráðningu er að ræða.

Þegar óvinnufærni er til komin vegna slyss er upphaf óvinnufærni yfirleitt afmarkað við tiltekið augnablik. Upphaf óvinnufærni í tíma af þeim sökum er því yfirleitt nokkuð ljóst og óumdeilt. Í slíkum tilvikum gæti ágreiningur helst myndast um gildi ráðningar þegar slys varð en ekki hvenær óvinnufærni hófst. Þegar um veikindi er að ræða getur þetta tímamark verið mun óljósara. Í slíkum tilvikum getur því frekar komið til þess að deilt er um upphafstíma óvinnufærninnar sjálfrar og hvort hún hófst þannig innan ráðningartímans. Á síðarnefnda tilvikið reyndi í eftirfarandi dómi Hæstaréttar frá árinu 1993.

Hrd. 1993, bls. 365. Skipverjinn A var ráðinn í það afmarkaða verkefni að sigla skipi frá Póllandi til Íslands. A veiktist á meðan á siglingunni stóð en harkaði af sér og leitaði til læknis eins fljótt og unnt var við komuna til landsins. Útgerð skipsins taldi A hafa verið vinnufæran þar til verkefninu var lokið þar sem hann stóð sínar vaktir allan tímann. Hæstiréttur leit til þess að samkvæmt vottorðum lækna hefði A þegar verið orðinn óvinnufær áður en siglingunni lauk. Lagði dómurinn því til grundvallar að veikindin hefðu hafist á meðan ráðningarsamband var til staðar þó A hefði harkað af sér og sinnt sínum störfum. Niðurstaðan var því að A ætti rétt á forfallalaunum.

Af ofangreindum dómi má draga þá fordæmisgefandi réttarreglu að upphaf óvinnufærni skipverja vegna veikinda ræðst af því hvenær skipverji raunverulega var orðinn veikur en ekki því hvort hann var við vinnu eða ekki. Skipverji sem harkar af sér þrátt fyrir að vera orðinn veikur á því ekki að missa réttindi af þeim sökum.

Ef ráðning er tímabundin getur komið til þess að ráðningartímabil rennur út á meðan skipverji á rétt til forfallalauna. Í slíkum tilvikum getur skipt máli hvort um er að ræða slys eða veikindi. Ef um er að ræða slys má segja að ráðningarsambandið framlengist á meðan forfallarétturinn er til staðar, sbr. eftirfarandi dóm Hæstaréttar.

Hrd. 1985, bls. 43. Skipverjinn A var ráðinn á skipið B til einnar veiðiferðar. A slasaðist um borð í skipinu tveimur dögum áður en veiðiferðinni lauk og var í kjölfarið óvinnufær í 46 daga eftir að komið var í land. A taldi sig eiga rétt til staðgengilslauna á meðan á óvinnufærni stóð en útgerðin taldi svo ekki vera þar sem ráðningarsambandi milli A og útgerðar B væri lokið. Hæstiréttur leit til orðalags forvera 36. gr. núgildandi sjómannalaga þar sem sagði að skipverji sem veikist eða slasast skuli „eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd“  meðan hann er óvinnufær. Leit dómurinn til þess að rétturinn væri afmarkaður við tvo mánuði. Þá sagði í dómnum: „Af hinum tilvitnuðu orðum leiðir, að sjómenn á fiskiskipum, sem veikjast eða slasast, meðan á ráðningartíma stendur, skulu halda í tvo mánuði eigi aðeins kauptryggingu, heldur og þeim aflahlut, ef því er að skipta, sem þeim hefði borið, ef þeir hefðu áfram gegnt þeirri stöðu, sem þeir höfðu á skipinu. Skiptir þá ekki máli fremur en verið hafði þótt vist veiks eða slasaðs skipverja á skipi hafi átt að ljúka fyrir lok þessa tíma samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings eða fyrir uppsögn“. Niðurstaðan var að A ætti rétt til staðgengilslauna þá 46 daga sem óvinnufærni stóð yfir í kjölfar veiðiferðarinnar.

Af dóminum má draga þá réttarreglu að ef ráðningarsamband rennur út á meðan skipverji á rétt til forfallalauna framlengist það á meðan rétturinn varir.

Ef um veikindi er að ræða gildir sama regla en með þeirri takmörkun þó að rétturinn nær aldrei til lengra tímabils en þess tíma sem ráðning hefur staðið þegar veikindi hefjast. Hafi þannig skipverji veikst í fyrstu veiðiferð eftir ráðningu verður réttur hans til forfallalauna vegna þeirra veikinda ekki lengri en veiðiferðin. Skipverji sem kemur í land veikur eftir 30 daga í sinni fyrstu veiðiferð á þannig rétt til forfallalauna í 30 daga eftir að komið er í land.

Annað skilyrðið er að skipverji hafi verið óvinnufær samkvæmt læknisvottorði. Í þessu felst annað hvort að skipverja hafi verið 1) ómögulegt að sinna starfi sínu eða 2) hann hafi haft brýna þörf fyrir að leita lækninga.

Ef skipverji er óvinnufær með öllu ber honum ekki að mæta til vinnu. Óvinnufærni skipverja getur stafað hvort heldur af líkamlegum eða andlegum orsökum. Skipverji sem orðið hefur fyrir líkamstjóni eða smitsjúkdómi sem leiðir til óvinnufærni mundi teljast líkamlega ófær til vinnu. Skipverji sem glímir við sálrænar raskanir sem gera hann óvinnufæran mundi teljast andlega ófær til vinnu ef raskanirnar ná ákveðnu alvarleikastigi, sbr. eftirfarandi dóm Hæstaréttar.

Hrd. 207/2005. A, sem var skipverji á frystitogara, missti son sinn þremur dögum áður en hann átti sjálfur að mæta til vinnu eftir frítúr. A mætti ekki til vinnu fyrr en rúmum fimm mánuðum síðar og ágreiningur kviknaði um hvort A ætti rétt til forfallalauna eða ekki. Í málinu lá fyrir yfirlýsing læknis sem annaðist A í kjölfar andláts sonar hans þess efnis að ástand A hefði á tímabilinu verið sjúklegt, umfram það sem venjulegt gæti talist við missi ástvina og A hefði verið alls ófær um að fara á sjó. Niðurstaðan var því að A ætti rétt á forfallalaunum í samræmi við 36. gr. sjómannalaga.

Af dóminum má draga þá réttarreglu að andleg veikindi geti verið grundvöllur óvinnufærni í skilningi 36. gr. sjómannalaga ef því alvarleikastigi er náð að skipverji er óvinnufær. Sönnunarbyrði um að því alvarleikastigi sé náð hvílir á skipverjanum og gera má nokkrar kröfur til sönnunar þar að lútandi, sbr. eftirfarandi dóm Hæstaréttar.

 

Hrd. 498/2007. Skipverjinn A krafðist forfallalauna vegna óvinnufærni sökum andlegs áfalls í kjölfar þess að náinn ættingi hans lést. Hæstiréttur leit til þess að læknirinn sem vottaði óvinnufærnina hitti A ekki á því tímabili sem A kvaðst hafa verið óvinnufær og kannaði þannig ástand hans ekki af eigin raun. Sönnun þótti því ekki hafa tekist um að sorg A hefði náð því alvarleikastigi að hann hefði verið óvinnufær. Niðurstaðan var því að útgerðin var sýknuð af kröfunni.

Sjómennskan er oft á tíðum hættulegt starf og skipverjar þurfa vegna eigin öryggis og öryggis annarra að vera meðvitaðir um umhverfi sitt og þær hættur sem þar leynast. Eðli málsins samkvæmt má búast við að skipverji sem glímir við sjúklega sorg eða önnur andleg veikindi á vissu alvarleikastigi sé ekki fær um að sinna starfinu af því öryggi sem gera þarf kröfu um og þarfnist tíma til að jafna sig og leita sér aðstoðar. Það eru því sterk rök fyrir því að skipverjar í þessari erfiðu stöðu eigi þess kost að njóta forfallalauna.

Skipverji sem hefur brýna þörf fyrir að leita lækninga getur átt rétt á forfallalaunum á meðan þær lækningar og eftirmálar þeirra standa yfir þótt hann sé í vinnufæru ástandi. Meginreglan í þeim efnum er að aðgerð eða meðferð sem skipverji undirgengst sé nauðsynleg til verndar vinnufærni skipverjans og sé viðkvæm í tíma, þ. e. að dráttur á að leita lækningar leiði til versnunar sem muni að lokum leiða til óvinnufærni skipverjans verði ekkert að gert. Í eftirfarandi máli reyndi á þetta atriði.

Hrd. 33/2000. A hafði glímt við veikindi í u. þ. b. eitt ár áður en hann gekk undir skurðaðgerð vegna veikindanna. Samkvæmt framburði lækna var A ekki óvinnufær þegar hann fór frá borði til að gangast undir aðgerð en það hefði leitt til óvinnufærni A ef ekkert hefði verið að gert auk þess sem lífi hans hefði verið stefnt í hættu. Þá hefði A verið óvinnufær í kjölfar skurðargerðarinnar. Niðurstaðan var því að A hefði verið óvinnufær í skilningi 36. gr. sjómannalaga og ætti rétt til forfallalauna samkvæmt ákvæðinu.

Ef aðgerð eða meðferð er ekki nauðsynleg til að vernda vinnufærni getur vinnufær skipverji ekki krafist forfallalauna til að undirgangast lækningar þrátt fyrir að telja megi þær nauðsynlegar, sbr. Hrd. 1991, bls. 484 þar sem skipverji sem þurfti að undirgangast tannréttingaaðgerð var ekki talinn eiga rétt til forfallalauna þar sem skilyrði um óvinnufærni var ekki talið uppfyllt.

Þriðja frumskilyrði forfallalauna á grundvelli 36. gr. sjómannalaga er að skipverji hafi tilkynnt óvinnufærni til skipstjóra eða útgerðar eins fljótt og unnt var. Í þessu felst að skipverja ber að koma á framfæri innan skynsamlegra tímamarka að hann hyggist gera kröfu um forfallalaun vegna óvinnufærni. Verulegur dráttur í þessum efnum getur leitt til þess að skipverji glatar rétti sínum vegna tómlætis. Svigrúm skipverja til að tilkynna óvinnufærni hefur verið nokkuð rýmra þegar um andleg veikindi er að ræða heldur en líkamleg, eðli málsins samkvæmt, þar sem andleg veikindi eru almennt líklegri til að draga úr frumkvæði hins sjúka til að tilkynna veikindin.

  1. Greiðslur – Tími og fjárhæðir

Réttur skipverja sem forfallast vegna slysa- eða veikinda til forfallalauna kann að vera nokkuð misjafn eftir atvikum og aðstæðum hverju sinni. Rétturinn samanstendur af 1) grunnrétti til staðgengilslauna, 2) auknum rétti vegna tímalengdar ráðningar, 3) auknum rétti í tilviki vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og 4) auknum rétti ef skipverji þarf að undirgangast aðgerð til að draga úr eða eyða afleiðingum vinnuslyss.

Grunnréttur skipverja sem forfallast frá vinnu vegna veikinda eða slyss er allt að tveggja mánaða réttur til staðgengilslauna. Meginreglan er að skipverji eigi að vera eins settur fjárhagslega og ef áföllin hefðu ekki borið að höndum. Hinn forfallaði skipverji á því rétt til allra greiðslna sem maður sem kemur eða hefði átt að koma í hans stað á rétt til.

Hafi skipverji samið við útgerð um fast fyrirkomulag, t. d. að róa annan hvern túr, þá getur staðan orðið sú að hinn forfallaði á ríkari rétt til launa frá útgerðinni meðan grunnrétturinn varir en ef hann hefði ekki slasast. Ástæða þessa er að 36. gr. sjómannalaga hefur verið túlkuð með þeim hætti að skipverji sem forfallast eigi rétt á fullum hlut fyrstu tvo mánuði sem hann forfallast þótt hann hefði átt að vera í fríi hluta tímabilsins, sbr. t. d. eftirfarandi dómur Hæstaréttar þar sem reyndi á þetta atriði.

Hrd. 400/2012. A var skipverji á frystitogara. Samkvæmt skriflegum ráðningarsamningi skyldu skipverjar vera um borð tvær veiðiferðir og ættu frí þá þriðju nema samkomulag yrði um annað. A slasaðist við vinnu sína í síðari veiðiferð af tveimur og hefði að óbreyttu átt að vera í launalausu fríi í þriðju veiðiferðinni. A krafði útgerðina um greiðslu forfallalauna fyrir þriðju veiðiferðina en kröfunni var hafnað með þeim rökum að A hefði verið í launalausu fríi meðan á henni stóð. Hæstiréttur skýrði 36. gr. sjómannalaga þannig að „skipverji sem forfallast við vinnu sína, haldi launum þótt hann hafi átt að fara í launalaust leyfi síðar“ og tilgreindi að vinnufyrirkomulag samkvæmt ráðningarsamningi milli A og útgerðarinnar breytti engu þar um. Niðurstaðan var því að A ætti rétt á forfallalaunum fyrir þriðju veiðiferðina.

Þessi réttarregla hefur verið nokkuð umdeild. Annars vegar hefur því verið haldið fram að óeðlilegt sé að skipverji sem forfallast beri meira úr býtum en skipverji sem er við störf. Hins vegar hefur því verið haldið fram að þegar skipverji sem veikist eða slasast við störf sín er ekki fær um að sinna þeim verkefnum og skyldum sem hann kann að bera þegar hann er ekki á sjó sé eðlilegt að hann þiggi forfallalaun innan marka ákvæðisins á meðan ástandið varir. Í öllu falli þá hvílir reglan á skýrum lagagrundvelli og rótgróinni dómaframkvæmd.

Hafi tveir skipverjar komist að samkomulagi við útgerð og sín á milli um að deila skiprúmi, róa annan hvern túr og deila með sér hálfum hlut fyrir hverja veiðiferð, miðast forfallalaun við hálfan hlut á meðan á óvinnufærni stendur. Grunnrökin að baki þessu eru að einungis sé til staðar ráðningarsamband vegna einnar stöðu sem skipverjar sinna í sameiningu og útgerðin sjái um greiðslumiðlun þeirra á milli. Eftirfarandi dómur Hæstaréttar er fordæmisgefandi hvað þetta varðar.

Hrd. 288/2007. Skipverjarnir A og B deildu með sér einni stöðu matsveins. Var fyrirkomulagið þannig að A og B skiptust á að róa og fengu hvor um sig hálf laun fyrir hverja veiðiferð samkvæmt samkomulagi sín á milli. Þegar A forfallaðist vegna veikinda fékk hann greitt fyrir bæði veiðiferð sem hann átti að fara og veiðiferð sem hann átti á vera í fríi en einungis hálfan hlut fyrir hvora veiðiferð eins og orðið hefði ef hann hefði ekki forfallast. Nokkru síðar krafðist A fullra staðengilslauna fyrir hvora veiðiferð. Hæstiréttur leit til þess að A og B hefðu saman gegnt einni stöðu og útgerðin hefði séð um greiðslumiðlun þeirra á milli. Niðurstaðan var því að A hefði einungis borið að fá greiddan hálfan hlut á meðan á forföllum stóð.

Réttarstaða tveggja skipverja sem róa t. d. annan hvern túr á fiskiskipi getur samkvæmt ofangreindu verið nokkuð misjöfn eftir því hvernig ráðningarsambandinu er háttað. Skipverji sem gerir einn samkomulag við útgerð um að róa annan hvern túr og þiggja laun samkvæmt því á þannig ríkari rétt til forfallalauna en skipverji sem deilir einu skiprúmi með öðrum gegn hálfum hlut fyrir hverja veiðiferð samkvæmt samkomulagi þeirra á milli. Ástæða þessa er samkvæmt framangreindu sú að í báðum tilvikum er um að ræða ráðningarsamband vegna einnar stöðu sem í síðargreinda tilvikinu deilist milli tveggja skipverja.

Aukinn réttur vegna tímalengdar ráðningar getur komið til ef skipverji hefur verið ráðinn á sama skip eða hjá sömu útgerð í tiltekinn tíma, sbr. 2. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Hafi ráðningarsamband staðið samfellt í tvö ár skal skipverji auk grunnréttarins eiga rétt til forfallalauna í einn mánuð en hafi ráðning staðið í samfellt fjögur ár skal viðbótin vera tveir mánuðir. Í þessum tilvikum miðast fjárhæðin við kauptryggingu eða fast kaup hafi verið um það samið.

Aukinn réttur vegna orsaka forfalla getur komið til ef skipverji forfallast vegna slyss við vinnu eða á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóms. Í slíkum tilvikum á skipverji rétt á þriggja mánaða forfallalaunum til viðbótar öðrum réttindum, sbr. 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Forföll sem tengjast rækslu starfsins með beinum hætti leiða því til aukins réttar umfram forföll sem leiða af slysum utan vinnu eða veikinda sem tengjast ekki rækslu starfsins með beinum hætti. Fjárhæðir á þessu tímabili miðast við kauptryggingu eða fast kaup hafi verið um það samið.

Aukinn réttur vegna afleiðinga vinnuslys getur komið til hjá fiskimönnum ef skipverji sem orðið hefur fyrir vinnuslysi hefur þörf fyrir aðgerð til að draga úr eða eyða afleiðingum vinnuslyss. Þessi réttur byggir ekki á 36. gr. sjómannalaga heldur kjarasamningum. Þannig hefur verið samið sérstaklega um það í kjarasamningum milli SFS og stéttarfélaga sjómanna að ef skipverji sem orðið hefur fyrir vinnuslysi hefur þörf fyrir aðgerð síðar til að draga úr eða eyða afleiðingum vinnuslyss eigi hann rétt á allt að tveggja mánaða forfallakaupi vegna þessa. Fjárhæðir í þessum tilvikum miða við kauptryggingu.

  1. Niðurlag

Þær réttarreglur sem fram koma í 36. gr. sjómannalaga um forfallarétt varða réttindi sjómanna sem oft eru í verulega viðkvæmri stöðu og hafa almennt verið taldar meðal þýðingarmestu reglna laganna. Við lögfestingu ákvæðanna á sínum tíma náðist víðtæk samstaða og þrátt fyrir að þau hafi verið uppspretta fjölda dómsmála og ágreinings utan réttar hafa þau staðið lengi óbreytt.

Eins og nefnt var í upphafi greinarinnar hefur réttur sjómanna hérlendis til forfallalauna tekið gríðarlegum breytingum síðustu hundrað árin. Þannig hefur rétturinn hvað tíma varðar frá árinu 1930 og til dagsins í dag færst frá því að vera sjö dagar í allt að níu mánuði undir tilteknum kringumstæðum. Þá er ótalið að ef um slys er að ræða taka nú við, þar sem forfallalaunum sleppir, reglur skaðabótaréttarins sem hafa það markmið að gera skipverja sem slasast eins settan fjárhagslega og ef slys hefði ekki orðið.

Vissulega er það ósk allra sjómanna að hvorki slasast né veikjast og þurfa þannig aldrei að nýta rétt sinn til forfallalauna. Viðhlítandi forvarnir um borð geta aukið líkurnar á að sú ósk rætist en munu seint útiloka forföll með öllu. Þegar illa fer er mikilvægt fyrir sjómenn að traust öryggisnet sé til staðar. Forfallalaun eru mikilvægur hluti af því öryggisneti.

 

Greinin birtist í Sjómannablaðinu Víkingur.