Sjúkraskrá – Á ég rétt á að breyta röngum upplýsingum í sjúkraskránni minni?

stethoscope, hospital, doctor-840125.jpg

Heilbrigðisstarfsmönnum ber skylda til að skrá í sjúkraskrá fyrir þá sem þau annast. Heilbrigðisstarfsmenn eiga að skrá þar lágmarksupplýsingar svo sem ástæðu komu, atriði í heilsufari sem skipta máli fyrir meðferðina, ofnæmi, lýsingu á meðferð, niðurstöður rannsókna, greiningu og afdrif og áætlun um framhaldið, svo það helsta sé nefnt.

Hver og einn heilbrigðisstarfsmaður ber ábyrgð á sínum skráningum. Ábyrgðaraðili sjúkraskrár hverjar heilbirgðisstofnunar eða einkastofu ber ábyrgð á sjúkraskránni sem heild. Ábyrgðaraðili sjúkraskrár er heilbrigðisstofnunin, eða einkastofan, þar sem sjúklingurinn fær meðferðina.

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að sjúklingar vilji fá aðgang að sinni sjúkraskrá. Hægt er að fá afrit af sjúkraskrá sinni að hluta eða í heild.  Sjúklingar, eða umboðsmenn þeirra, hafa rétt á því að fá afrit af sinni sjúkraskrá, og þurfa ekki að gefa upp neina ástæðu fyrir því. Í undantekningartilfellum getur verið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að veita honum aðgang að sjúkraskránni og er þá heimilt að synja honum um aðgang.

Sjúkraskrá

Má ég banna heilbrigðisstarfsmönnum að hafa aðgang að sjúkraskránni minni?

Heilbrigðisstarfsmönnum ber skylda til að færa upplýsingar um þá meðferð sem þeir veita í sjúkraskránna. Heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn og nemar í starfsnámi í heilbrigðisvísindum hafa aðgang að sjúkraskrá sjúklinga við vinnu sína. Allir starfsmenn sem hafa aðgang að sjúkraskánni skulu hafa undirgengist trúnaðar- og þagnarskyldu. Það getur þó verið svo að sjúklingur vilji ekki að ákveðnar upplýsingar séu aðgengilegar öðrum starfsmönnum en þeim sem þær skráir. Getur hann þá farið fram á það. Það getur þó verið að það sé nauðsynlegt vegna meðferðar að aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafi aðgang að viðkomandi sjúkraskrárupplýsingum skal heilbrigðisstarfsmaðurinn þá upplýsa sjúkling um það og um að synjun um að heimila nauðsynlegan aðgang að sjúkraskránni geti jafngilt því, eftir atvikum, að meðferð hafi verið hafnað, sbr. lög um réttindi sjúklinga.

Get ég látið breyta röngum eða villandi upplýsngum í sjúkraskránni minni?

Ef sjúklingur telur að sjúkraskrárupplýsingar séu rangar eða villandi skal athugasemd hans um það skráð í sjúkraskrána. Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimilt með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá viðkomandi og því sé þá gætt að ekki glatist upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna réttarágreinings. Ef umsjónaraðili neitar að leiðrétta sjúkraskrárupplýsingar sem sjúklingur telur bersýnilega rangar eða villandi getur sjúklingur kært það til Landlæknis. Ekki er heimilt er að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá sjúklings nema með samþykki landlæknis.

Hér finnur þú lög um sjúkraskrár.

Viltu lesa fleiri greinar? Hér finnur þú þær.