Sjúkraskrá – Á ég að borga fyrir afrit af sjúkraskrá?

Sjúkraskrá

Heilbrigðisstarfsmönnum ber skylda til að skrá í sjúkraskrá fyrir þá sem þau annast. Heilbrigðisstarfsmenn eiga að skrá þar lágmarksupplýsingar svo sem ástæðu komu, atriði í heilsufari sem skipta máli fyrir meðferðina, ofnæmi, lýsingu á meðferð, niðurstöður rannsókna, greiningu og afdrif og áætlun um framhaldið, svo það helsta sé nefnt.

Hver og einn heilbrigðisstarfsmaður ber ábyrgð á sínum skráningum en ábyrgðaraðili sjúkraskrár hverrar heilbirgðisstofnunar eða einkastofu ber ábyrgð á sjúkraskránni sem heild. Ábyrgðaraðili sjúkraskrár er heilbrigðisstofnunin, eða einkastofan, þar sem sjúklingurinn fær meðferðina.

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að sjúklingar vilji fá aðgang að, eða afrit af sjúkraskrá sinni að hluta eða í heild.  Sjúklingar, eða umboðsmenn þeirra, hafa rétt á því að fá afrit af sinni sjúkraskrá, og þurfa ekki að gefa upp neina ástæðu fyrir því. Í undantekningartilfellum getur verið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að veita honum aðgang að sjúkraskránni og er þá heimilt að synja honum um aðgang.

Sjúkraskrá

Þarf að greiða fyrir aðgang að sjúkraskránni?

Í lögum um sjúkraskrá er alveg skýrt að ekki er heimilt að fara fram á að sjúklingar greiði fyrir aðgang að sjúkraská sinni. En það er nokkuð oft sem heilbrigðisstofnanir og einkastofur, krefji sjúklinga samt um greiðslu, og vísi m. a. til reglugerðar um 9. tölul. 14. gr. reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu nr. 1551/2022. Slíkt er ekki heimilt, og gildir sú reglugerð ekki um afrit af sjúkraskrá.

Heilbrigðisráðuneytið hefur nýlega í tvígang tekið fyrir kvartanir frá sjúklingum sem höfðu verið krafin um gjald vegna afrits af sjúkraskrá sem annars vegar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafði krafið um, og hins vegar Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Í stuttu máli féllu úrskurðirnir á þann veg að Heilbrigðisráðuneytið taldi ljóst að ekki væri heimilt að fara fram á greiðslu vegna afrits af sjúkraskrám, og áttu stofnanirnar að endurgreiða sjúklingunum það sem þeir höfðu þegar greitt fyrir afritin.

Hér finnur þú lög um sjúkraskrár.

Viltu lesa fleiri greinar? Hér finnur þú þær.