Sjóslys – skyldur, viðbrögð og reglur í kjölfar sjóslyss
Sjóslys geta orðið hvar og hvenær sem er, og þegar þau gerast skiptir miklu máli að vita hvaða skyldur hvíla á skipstjórnarmönnum og hvaða reglur gilda. Hér er farið yfir helstu atriði sem tengjast sjóslysum – allt frá fyrstu viðbrögðum skipstjórnarmanna til skráningar, tilkynninga og formlegra rannsókna.
Fyrstu viðbrögð þegar sjóslys verður
Þegar sjóslys á sér stað er öryggi fólks og skips í forgangi. Rétt viðbrögð við sjóslysi geta skilið á milli lífs og dauða.
- Allir um borð skulu framkvæma þau verk sem skipstjóri metur nauðsynleg í þágu öryggis.
- Ef skip kemst í sjávarháska ber skipstjóra að gera allt sem í hans valdi stendur til björgunar og kalla til nauðsynlegrar aðstoðar.
- Skipstjóra er óheimilt að yfirgefa skipið meðan raunhæf von um björgun er til staðar, nema honum sé sjálfum yfirvofandi hætta búin.
- Sjófarendum ber að bjarga öðrum úr hættu ef það er hægt án þess að stefna eigin lífi eða skipi í voða.
Skráning og tilkynningar í kjölfar sjóslyss
Eftir sjóslys er skráning og tilkynning lykilatriði til að tryggja rétta málsmeðferð.
- Skipstjóri skal færa nákvæmar skýrslur í leiðarbók skips um atvik, orsakir og viðbrögð.
- Útgerðarmaður ber ábyrgð á að tilkynna um bótaskyld slys til Sjúkratrygginga Íslands.
- Skylt er að tilkynna rannsóknarnefnd samgönguslysa um öll sjóslys og sjóatvik, þar á meðal:
- Alvarleg meiðsl eða dauðsfall.
- Fall manns fyrir borð.
- Skip sem skemmist, ferst eða verður fyrir búnaðartjóni sem minnkar öryggi.
- Tjón á umhverfi.
Sjóatvik er atburður sem hefði getað leitt til sjóslyss en var komið í veg fyrir með réttum aðgerðum.
Rannsóknir í kjölfar sjóslysa
Eftir sjóslys hefjast rannsóknir sem geta verið mismunandi eftir því hvort markmiðið er forvörn, refsiábyrgð eða bótamál.
- Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar sjóslys í forvarnarskyni til að draga lærdóm og bæta öryggi.
- Lögregla rannsakar ef grunur leikur á refsiverðu broti, eða ef mannslát, mannshvarf, eldsvoði eða alvarlegt slys hefur átt sér stað.
- Einstaklingar eða félög sem orðið hafa fyrir tjóni safna upplýsingum og sönnunargögnum til að styðja vátrygginga- eða skaðabótakröfur.
Sjópróf vegna sjóslyss
Sjópróf er vitnaleiðsla fyrir héraðsdómi sem er oft framkvæmd í kjölfar sjóslyss. Þar fá aðilar tækifæri til að leiða vitni, spyrja spurninga, kynna sér skjöl og gera bókanir.
Tilgangurinn er að upplýsa orsakir sjóslyss og aðrar staðreyndir sem skipta máli við rannsókn.
Heimilt er að krefjast sjóprófs fyrir eftirfarandi aðila:
- Samgöngustofu, rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglu.
- Eiganda skips, útgerðarmann, leigutaka eða skipstjóra fyrir þeirra hönd.
- Farmeiganda.
- Vátryggjanda skips, áhafnar, farþega eða farms.
- Yfirvélstjóra eða meirihluta skipshafnar.
- Stéttarfélög sjómanna.
- Einstakling eða lögaðila sem orðið hefur fyrir tjóni vegna sjóslyss.
Sjóslys eru alvarleg atvik sem geta haft víðtækar afleiðingar fyrir fólk, skip, farm og umhverfi. Með því að þekkja réttu viðbrögðin, skráningarferla og skyldur er hægt að auka líkur á réttum viðbrögðum í kjólfar sjóslyss.
Hefurðu orðið fyrir slysi í landi eða um borð? Hafðu samband strax til að fá ráðgjöf um bótarétt þinn. Við hjálpum þér að tryggja þín réttindi. Engar bætur, engin þóknun.