Óskipt bú – hvað má gera í óskiptu búi?

Óskipt bú.

Við andlát einstaklings þarf að skipta búi hans. Við andlát verður til sérstakur lögaðili sem er dánarbú. Dánarbúið tekur við öllum eignum og skuldum hins látna, þar til skiptum er lokið.  Í einhverjum tilfellum getur eftirlifandi maki setið í óskiptu búi.

Dánarbúið skiptist svo á milli erfingja eftir þar til gerðum reglum erfðaréttarins. Hjón sem eiga einungis sameiginlega erfingja geta setið í óskiptu búi eftir andlát annars þeirra. Þau þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir vegna þess fyrir andlát. Hjón sem hins vegar eiga börn frá fyrri samböndum eða hjónabandi, þurfa að geta þess í erfðaskrá að hið langlífara fái að sitja í óskiptu búi. Þegar talað er um sameiginlega erfingja er jafnan átt við sameiginleg börn, og afkomendur þeirra.

Sýslumaður gefur leyfi til setu í óskiptu búi, að ósk eftirlifandi maka. Eftir að leyfi hefur verið gefið út ber eftirlifandi maki ábyrgð á öllum eignum og skuldum hins látna.

Óskipt bú

Óskipt bú, hvað má gera við eignir búsins?

Þegar eftirlifandi maki hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, hefur hann tekið við öllum skuldum og eignum, og ber persónulega ábyrgð á þeim.

Makinn ræður einn yfir öllum eignum búsins, og þarf ekki samþykki annarra erfingja til að ráðstafa eignum. Það þýðir að hann getur keypt og selt eignir og nýtt þá peninga sem til eru. Makinn þarf ekki samþykki barna þess látna, eða annarra erfingja. Hann má því ráðstafa eignunum að vild.

Það er þó svo að þeim sem situr í óskiptu búi ber að gæta hóflegrar fjárstjórnar.

Ef þeim sem situr í óskiptu búi, hlotnast arfur eða gjöf, þarf hann innan tveggja mánaða að láta sýslumann vita að það eigi ekki að renna inn í búið. Að öðrum kosti verður sú gjöf eða arfur hluti af búinu.

Vantar þig aðstoð lögmanns við gerð erfðaskrár? Hafðu samband.