Fasteign hefur verið skilgreind sem afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru við landið skeytt. Með fasteign er einnig átt við eignarhluta í húsi eða öðru mannvirki sem skiptist í fleiri en einn eignarhlut.
Samningur um kaup á fasteign er bindandi þegar fullgilt skriflegt tilboð kaupanda hefur verið samþykkt af seljanda. Til að um bindandi samning sé að ræða þarf tilboð að fela í sér skuldbindingu um greiðslu tilgreinds kaupverðs og afhendingu fasteignar.
Aðalskylda kaupanda felst í greiðslu ákveðins kaupverðs með tilteknum hætti og aðalskylda seljanda felst í afhendingu ákveðinnar fasteignar sem uppfyllir ákveðnar kröfur. Verði misbrestur á efndum annars eða beggja aðila getur stofnast til ágreinings um ásættanlega niðurstöðu.
Meðal helstu ágreiningsefna á sviði fasteignakaupa má telja annars vegar ágreining um hvort stofnast hafi til skuldbindandi samnings um kaup fasteignar og hins vegar hvort fasteign uppfylli þær kröfur sem kaupandi mátti búast við.
Porto lögmannsstofa tekur að sér hagsmunagæslu í tengslum við hvers kyns ágreiningsmál á sviði fasteignakaupa.